Forðastu hundsbit
Hundar hafa búið með fólki í yfir 12.000 ár og á þeim tíma hefur hundurinn þróað gott tjáskiptakerfi sem maðurinn getur lært að skilja. Ef allir vissu hvenær hundur er hræddur eða reiður væri líklega hægt að fækka hundsbitum umtalsvert. Samkvæmt bandarískum rannsóknum eru það helst börn sem eru bitin og þá oftast af hundum sem þau þekkja. Aldrei verður það ítrekað nægilega að skilja ekki börn og dýr eftir ein og eftirlitslaus. Í þessari grein verður bent á nokkur atriði sem gott er að vita þegar maður umgengst hunda.
Jafnvel hinir þolinmóðustu hundar geta orðið óöruggir við snöggar hreyfingar eða háa rödd. Fæstum hundum finnst gott að láta fólk sem þeir þekkja lítið faðma sig eða taka sig upp. Best er að vera róleg í kringum hunda og tala með lágri röddu.
Til þess að forðast bit má fylgja eftirfarandi reglum:
· Alltaf skal biðja um leyfi eiganda áður en hundi er klappað og ef enginn eigandi er nálægt þá er best að láta hundinn vera. Ef leyfi fæst þá skal fara rólega að hundinum og leyfa honum að þefa af hendi áður en maður klappar honum svo á síðuna eða á hálsinn.
· Ekki taka hunda upp jafnvel þó þeir séu litlir.
· Aldrei skal læðast að dýrum þegar þau eru að hvíla sig eða borða. Dýrunum getur brugðið mikið og bitið ósjálfrátt.
· Ekki klappa hundi sem er að leika sér með dót eða að naga bein. Hundar geta brugðist illa við ef þeir halda að einhver sé að taka það sem þeir eiga.
· Aldrei að klappa hundi í bíl. Hundar reyna yfirleitt að passa sitt svæði og geta glefsað í hendur sem teygja sig inn um glugga til að klappa.
· Eins skal ekki klappa hundum sem eru í girðingu þar sem þeir líta á garðinn sinn sem sitt svæði og reyna margir að vernda það eftir bestu getu.
· Þó hundur dilli skottinu er ekki víst að hann vilji tala við ókunnuga.
· Ef hundur er meiddur eða veikur er líklegt að hann sé ekki jafn þolinmóður og annars og getur mikið slasaður hundur meira að segja verið stórhættulegur og bitið eigendur sína. Því ber að fara sérstaklega varlega að slösuðum dýrum, þeim finnast þau mjög varnarlaus.
· Mörgum hundum finnst óþægilegt að láta klappa sér á höfuð og herðarkamb. Eins eru sumir hundar viðkvæmir i eyrum og geta brugðist illa við ef fólk reynir að klóra þeim um eyrun. Best er að klappa þeim á hálsi og þá alltaf með hárunum.
· Ekki er heppilegt að beygja sig yfir hunda þar sem þeir geta litið á slík sem ógnandi tilburði.
Til að skilja hunda betur er mjög gott að fylgjast svolítið með líkamsstöðu þeirra. Hræddur hundur lítur öðruvísi út en hundur sem er reiður. Þegar hundar eru hræddir eða reiðir eru þeir líklegri til að bíta.
Reiður hundur reynir að sýnast stór, eyrun standa meira upp, hann reisir kamb á bakinu, stífnar allur upp og skottið er stíft. Reiður hundur er líklegur til að sýna tennur, urra og stara.
Hræddur hundur reynir að virðast minni en hann er í raun, hann setur skottið undir sig, leggur eyrun niður og pírir augun. Hræddir hundar líta oft út fyrir að vera í hálfgerðum keng. Skjálfti og hræðslupiss er mjög algengt hjá hræddum hundum. Þeir geta þó urrað og bitið í þessari stöðu.
Hundar eiga ekki að ganga lausir í bæjum en ef þú mætir lausum hundi sem kemur hlaupandi á móti þér er gott að gera eftirfarandi:
· Stattu kyrr, með hendur niður með síðum, reyndu að snúa hlið eða jafnvel baki í hundinn.
· Alls ekki stara í augun á hundinum.
· Ef þú liggur eða situr er best að hnipra sig saman og setja hendur yfir eyrun. Líklegast er að hundurinn þefi aðeins og haldi síðan áfram sína leið.
· Ekki hlaupa í burtu. Hundurinn getur litið á þig sem bráð og reynt að veiða þig og eins getur hann haldið þetta vera leik og stokkið upp á þig og þú meitt þig. Best er að bakka bara rólega.
· Ef þú verður fyrir biti þá skaltu hafa samband við lækni en ef um barn er að ræða skal láta fullorðinn vita.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að tjáskipti hunda og manna eru ólík og með því að kynna sér helstu hættumerki og umgengnisreglur geta samskipti við besta vin mannsins orðið enn betri og öruggari.